Menning getur verið nánast hvað sem er, hegðun, gildi, hefðir, mannlegar aðstæður, athafnir eða athafnaleysi og er eitt flóknasta hugtakið í enskri tungu og hugsanlega þeirri íslensku líka.
Throsby setur fram í bók sinni Cultural Economics tvær skilgreiningar á hugtakinu menningu. Sú fyrri nær til víðs mannfræðilegs og samfélagslegs ramma sem svipar til klassísku hugmyndar mannfræðinnar um menningu sem allt það sem ákveðinn hópur fólks af sama uppruna á landfræðilega skilgreindu svæði sammælist um að sé réttmæt hegðun, trú og gildi. Seinni skilgreiningin á menningu hjá Thorsby tekur mið af því sem fólk tekur sér fyrir hendur og framleiðni menningarafurða sem eiga rætur í hinu vitsmunalega og listræna í mannsandanum. Hér á skilgreiningin á menningu frekar skírskotun til upplýsingarinnar og menntunar hugans en til hreinnar færni í verklagi eða ákveðinnar tækni. Til þess að skýra enn frekar hvað það er sem getur talist menningarafurð í þessum skilningi þá er hægt að segja að framleiðsla þeirra feli í sér sköpun og séu á einhvern hátt hugverk og geti falið í sér einhverja táknræna merkingu.
Í anda klassísku hugmyndar mannfræðinnar þá er menning sjálfstætt kerfi sem endurnýjar sig sjálft þar sem aðgreinanlegir þættir hennar fléttast saman í heildstæða, afmarkaða og varanlega einingu. Í bók sinni menningarhagfræði talar Ágúst Einarsson, og reyndar fleiri, um menningu á svipaðan hátt eða sem mannlega hegðun sem flyst milli kynslóða. Menning mótast fyrst og fremst af reynslu margra kynslóða og lýsir, skapar, varðveitir og miðlar tilfinningum og umhverfi mannlegs samfélags.
Comments